Fyrir hverju erum við að safna?

Svarthvít mynd af drengjum fyrir utan Gamla skála með fánann í forgrunni.

Það eru mörg verkefni sem þarf að vinna í Vatnaskógi

Það eru mörg verkefni sem þarf að vinna í Vatnaskógi, stór og smá. Megintilgangur þessarar fjáröflunar er fyrst og fremst að sinna stærri verkefnum, sem munu endast og nýtast þeim sem koma í Vatnaskóg um ókomna tíð. Allt okkar starf snýst um að efla líkama, anda og sál æsku landsins og það er markmið þessarar söfnunar líka.

Teikning af nýjum matskála í Vatnaskógi.

Nýr matskáli

Árið 1968 var nýtt hús tekið í notkun í Vatnaskógi. Það var hugsað sem sumarskáli en þar inni var matsalur, eldhús og íbúð fyrir starfsfólk. Þetta hús er enn notað í dag sem matskáli Vatnaskógar en það er komið til ára sinna, of lítið, hljóðvist léleg og eldhúsið ekki í takt við kröfur samtímans. Húsið var aldrei byggt til þess að vera notað yfir allt árið eins og gert er í dag. Skógarmenn hafa undanfarin ár unnið góða undirbúningsvinnu að draumamatskálanum. Teikningar liggja fyrir, byggingarleyfi komið og grunnvinna að fara í gang.
Vatnaskógur hefur verið gríðarlega lánsamur að fá ýmsa styrki fyrir húsið og ætla Skógarmenn sér að klára það á næstu árum. Þetta verkefni er það stærsta sem Skógarmenn vinna að í dag og er það gríðarlega kostnaðarsamt. Þessi kostnaður mun þó skila sér í framtíðarhúsnæði sem mun nýtast vel fyrir alla þá sem koma í Vatnaskóg.

Stínusjóður

Kristín Guðmundsdóttir fæddist árið 1911. Hún hóf störf í Vatnaskógi árið 1943, sama ár og Gamli skáli var kláraður. Hún vann síðan sem ráðskona næstu 40 sumrin, eða til ársins 1983. Allir sem komu í Vatnaskóg á þeim tíma hafa hlýjar minningar af henni og þeim kærleik sem hún sýndi, og að sjálfsögðu þeim frábæra mat sem var á boðstólnum! Stínusjóður var stofnaður til heiðurs hennar. Markmið sjóðsins er að veita börnum sem ættu annars ekki kost á því tækifæri til að njóta dvalar í flokki í Vatnaskógi. Markmið okkar er að reyna að veita sem flestum möguleika á að koma í Vatnaskóg og því viljum við styðja við Stínusjóð.

Frá skemmtun í íþróttahúsinu í Vatnaskógi á Sæludögum.

100 ára afmælishátíð og kvikmynd um Vatnaskóg

Í ár er Vatnaskógur 100 ára. Þetta er mikill áfangi og ætlum við að fagna honum vel. Um verslunarmannahelgina er öllum landsmönnum boðið á Sæludaga í Vatnaskógi líkt og síðustu 30 ár. Sæludagar eru stórskemmtileg fjölskylduhátíð og verður hún veglegri en nokkru sinni fyrr í tilefni 100 ára afmælisins. Á sunnudeginum verður sérstök afmælisdagskrá sem endar með hátíðarkvöldvöku að hætti Skógarmanna. Afmælisritið, Hér á ég heima, kemur út í sumar. Bókin fjallar ítarlega um sögu staðarins og eru í henni margar myndir frá öllum tímabilum.
Skógarmenn vilja gera kvikmynd um staðinn sem rekur sögu hans og getur þjónað sem fræðslu- og skemmtiefni næstu áratugi. Kvikmyndin verður leikin og fléttar saman sögu Vatnaskógar og drengs sem fer í sumarbúðirnar í nútímanum. Handritið liggur fyrir og er verkefnið gríðarlega metnaðarfullt. Skógarmenn hafa alltaf sett markið hátt, hundrað ára gamlir draumar og stór markmið undangenginna kynslóða er ástæðan fyrir því að Vatnaskógur hefur vaxið og dafnað og orðið að þeim stað sem hann er í dag.

Mjög gömul mynd af Gamla skála.

Viðhald staðarins og Gamli skáli

Í Vatnaskógi eru 7 hús tengd við rafmagn og hitaveitu. Húsin eru hönnuð til að hýsa á annað hundrað manns og nýtast í alls konar starfsemi, hvort sem það er íþróttahúsið, matsalur, svefnsalir, bátaskýlið eða kapellan. Skógarmönnum finnst mikilvægt að bjóða gestum staðarins upp á fyrsta flokks aðstöðu. Þúsundir klukkustunda eru gefnar árlega af sjálfboðaliðum sem sinna viðhaldi staðarins. Dvalargjöld barna geta ekki staðið straum af viðhaldskostnaði, því þá myndu þau hækka svo mikið að færri gætu sótt starfið. Okkar ástsælasta hús, Gamli skáli, fagnar 80 ára afmæli í ár og hefur verið vel nýtt frá upphafi. Á síðustu árum hefur notkun á honum takmarkast verulega. Okkur þykir gríðarlega vænt um húsið og viljum nota það áfram en til þess þarf að fara í framkvæmdir við það. Þar fyrir utan fer að koma að endurnýjun og uppbyggingu annarra svæða, þá helst íþróttahúsinu og íþróttavellinum. Íþróttir hafa alltaf verið mikilvægur hluti af starfi Vatnaskógar og hafa Skógarmenn lengi viljað bæta aðstöðuna til að bjóða börnum upp á enn fleiri tækifæri til íþróttaiðkunar.

Greiðslumöguleikar

Styrktu Vatnaskóg! Hægt er að styrkja okkur með korti á greiðslusíðunni eða í gegnum Aur á @Vatnaskogur. Þú velur hve marga daga í sögu Vatnaskógar þú vilt kaupa.

Hafa samband

Ertu með einhverjar spurningar eða vilt hjálpa? Hefurðu hugmyndir að samstarfi eða vill fyrirtækið þitt styrkja okkur? Endilega hafðu samband á sofnun@vatnaskogur.is